Ég er með hugmynd að lausn á umferðarmálum á Íslandi, ja eða allavega á höfuðborgarsvæðinu. Það eru varla margir staðir úti á landi með fjölreina akbrautir og annað í þeim dúr.
1. Mjókkum akbrautir
Já, þið heyrðuð í mér. Mjókkum akbrautir. Íslendingar kunna hvort eð er ekkert að keyra á götum með fleiri en eina akrein í hvora akstursstefnu. Svína hægri, vinstri. Gefa ekki stefnuljós, og furðanlega margir halda að vinstri akreinin sé til þess gerð að dóla í rólegheitunum við hliðina á bílunum á þeirri hægri. Þessi vandamál verða úr sögunni ef við leggjum aukaakreinar af.
2. Burt með hringtorgin, inn með umferðarljósin
Þeir tilheyra blessunarlega fámennum hópi, umferðarlúðarnir sem ekki kunna á umferðarljós, en það er hinsvegar tómlegt og einmanalegt á félagsfundum okkar elítunnar sem kunnum að aka um hringtorg.
Hvernig stendur á því að þegar fólk ekur út af tvíakreina hringtorgi út á breiða akbraut að það virðist halda að það megi bara velja sér akrein? Það er óþolandi að aka á ytri hring og vera að fara útaf hringtorgi út á hægri akrein, þegar einhver sveitalubbi á rúnkjeppa svínar fyrir mann, af innri akrein – yfir á hægri akrein.
Ekki það. Ég hef svosum gaman að því að liggja á flautunni í góðar 15 sekúndur.
3. Leggjum niður gangbrautir
Gagnslausasta fyrirbæri umferðarmenningarinnar. Veitir sömu fölsku öryggiskennd og björgunarvesti í flugvélum. Það er varla til akandi kjaftur sem stoppar við gangbraut, og oftar en ekki hafa ökumenn flautað á mig þar sem ég hef dirfst að trufla þá með því að ganga út á gangbraut. Eina fólkið sem fær menn til að stoppa við gangbrautir eru óléttir skátar á áttræðisaldri með barnavagn og bekk af leikskólakrökkum í eftirdragi.Þar hafið þið það. Heildarlausn á umferðarvandanum... eða alltént umferðarpirringnum.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home