sixnineone

... user unknown ...

16.3.05

barnaland.is

Í dag, og jafnvel undanfarna daga - er ekki viss var að vakna úr móki, hefur plebbavefurinn barnaland.is verið mikið í umræðunni vegna þess að einhver konukind notaði þann miðil til að spúa út úr sér ærumeiðingum í blindum ofsa misskilinnar réttlætisfullnægingar.
 
Landinn er sjokkeraður, sár og svekktur.
 
Ég er aftur á móti ekkert sérlega sjokkeraður, þannig. Það eru þarna aðrir hlutir sem fara meira fyrir brjóstið á mér en þetta. Ég er löngu orðinn ónæmur fyrir því að lesa ærumeiðingar, slúður, og heimskuleg ummæli og láta þau sem vind um eyru þjóta, ég meina - fólk ætti nú að vera í ágætis þjálfun, því eitthvað selst jú DV. 
 
Athygli mín var annars nýlega vakin á þessarri síðu og það eru aðrir hlutir þar sem sjokkera mig meira en þetta mál. Nú á ég ekki börn og einhverjir eiga væntanlega eftir að ranghvolfa augunum og segja sem svo "Þú veist ekki hvað þú ert að tala um - þetta breytist þegar þú eignast börn sjálfur"..... Prump. Ég held að það sé kominn tími til að sett séu lög þess efnis að nú sé komið nóg. Barnafólk megi ekki lengur nota þessa afsökun sem einhvern lokahnikk í "rökræður" þar sem börn eru að einhverjum hluta viðfangsefnið. Allskonar hálfvitar (er ég að skjóta mig í fótinn?) mega hafa álit á þjóðmálunum án þess að þingmenn segi "Þú veist ekki hvað þú ert að tala um - þetta breytist þegar þú ferð á þing".
 
Það sem fer mest fyrir brjóstið á mér eru allar hinar síðurnar þarna. Til að friða nú aðeins þá sem eru ósammála ofangreindri tillögu minni að lagasetningu og gefa þeim smá tíma til að þurrka froðuna úr munnvikunum þá er rétt að ég taki fram að ég skilji vel að fólk vilji dásama og upphefja börn sín, það er jú ekki nema eðlilegt..., en þessar hrikalega illa skrifuðu, ósmekklegu síður gera blessuðum sakleysingjunum síður en svo hátt undir höfði, að mínu mati.
 
Ég hef nú svosum ekki skoðað neinn meginþorra þessarra síðna, er ekki í rannsóknarblaðamennskugírnum, og það er hvort eð er í tísku að skrifa órökstuddar ásakanir þessa dagana, en af þeim síðum sem ég hef skoðað þá hef ég tekið eftir neðangreindum þáttum sem fara meira fyrir brjóstið á mér en meintar ærumeiðingar:
 
1. Grunnskólar landsins ættu að standa að endurmennturnarkúrsum í einfaldri stafsetningu og réttritun, og bjóða verðandi foreldrum námskeið í þeim fræðum.
 
2. "Ég heiti Doddi og er þriggja mánaða..." Að skrifa fyrir hönd barnsins í fyrstu persónu er ósmekklegt og í sama flokki sýrópsvæmni og þegar fólk talar um dýrin sín sem börn: "Á pabbi að fara með þig út að ganga!?"
 
3. Pastellitir, Michelangelískir englar, hvolpar, kettlingar, og annað myndrænt efni í svipuðum dúr hefur svosum fyrir löngu fest sig í sessi sem "barnakrúttlegt", en það sem fæstir skilja er að svona efni er vandmeðfarið þar sem það getur auðveldlega farið yfir strikið og valdið meltingartruflunum hjá lesandanum. Einhver þarf að kenna fólki að gæta hófsemi og smekkvísi í uppsetningum þessarra vefsíðna.
 
4. Í fjórða og síðasta lagi... hversvegna setur fólk upp opnar vefsíður með öllum upplýsingum um börnin sín? Upplýsingum sem það myndi aldrei birta um sig sjálft? Upplýsingum sem aðeins nákomnir hafa einhvern áhuga á... ja og svo auðvitað ókunnugir með óeðlilegar kenndir...
 

2 Comments:

  • At 4:15 f.h., Blogger notandi 691 said…

    Þakka þér. Þetta komment þitt er ekki sem verst heldur :)

     
  • At 1:05 f.h., Blogger notandi 691 said…

    Já, það er einmitt svoleiðis fólk sem seinna lendir í tilvistarkreppu, breytir húðlit sínum, og nánast kyni, og flytur á stóran búgarð hlaðinn leikföngum.

     

Skrifa ummæli

<< Home