sixnineone

... user unknown ...

7.3.05

Eyðsla

Ég vinn á skrifstofu.
 
Á stórum skrifstofum fær maður prýðistækifæri til að skoða fjölbreytni mannlífsins. Maður sér allskonar fólk með allskonar siði gera allskonar hluti á allskonar hátt. Ég er almennt ekkert nema umburðarlyndið og ánægjan þegar kemur að fólki sem vill gera hlutina öðruvísi en ég, en eitt fer alveg afskaplega fyrir brjóstið á mér, og það er óþörf eyðsla, einskonar sinnuleysi fyrir umhverfi og auðlyndum.
 
Ég er ekkert hrópandi vinstri-grænn, með barmmerki í flauelsjakkanum og íklæddur áprentuðum bol með andlitsmynd af Che Guevara, en mér þykir óþarfa eyðsla bera vott um dofið skeytingarleysi.
 
Hér innan skrifstofunnar er lítil undirdeild, sem telur ca. 15-20 manns, þar sem þessi eyðslumenning er sérstaklega áberandi. Starfsmenn þessarar deildar virðast yfir það hafnir að notast við kaffibolla sem fyrirtækið skaffar starfsmönnum afnot af, og þurfa þeir því einhverra hluta vegna alltaf að notast við einnota plastbolla.... og tvo í senn.
 
Eitthvert sinnið benti ég þeim nú á þessa prýðisbolla sem finna má í aðgengilegum eldhússkáp, en þeir brostu bara og muldruðu eitthvað óskiljanlegt..., væntanlega hræddir við að smitast af ebola eða kóleru.
 
Nýlega hef ég svo tvisvar rekist á menn sömu deildar á karlaklósettinu, og eftirfarandi dæmi er lýsandi fyrir þá upplifun.
 
Á salerninu er boðið upp á pappírsþurrkur til að þerra hendur sínar, og hefur mér með lagni tekist að þerra mig þurran með aðeins einni þurrku. Því furðar vart engan að ég hafi staðið einsog í losti og horft á þennan samstarfsmann minn draga út 7 þurrkur, rétt strúka af höndum sér og henda þeim að svo búnu í ruslið... nánast ónotuðum.
 
Þetta finnst mér einfaldlega heimska.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home